Heima er ró og tækifæri til að skapa
Ungu fólki frá Dalabyggð, Reykhólahreppi og Strandabyggð var boðið til síðdegisstundar með ráðgjöfum hjá Alta í Reykjavík þann 17. nóvember sl. Tilgangur fundarins var að ræða tengsl unga fólksins við heimahagana og sýn þeirra á framtíð svæðisins. Markmiðið var að fá fram upplýsingar og sjónarmið sem nýst gætu við að móta stefnu í byggða- og skipulagsmálum sem styrkir ímynd svæðisins. Mikilvægt er að svæðisskipulagsverkefnið taki mið af rödd ungu kynslóðarinnar, en hennar er að taka við boltanum í atvinnulífi og stjórnsýslu í framtíðinni.
Á fundinum var svæðisskipulagsverkefnið fyrst kynnt og sýnd íslensk og erlend fordæmi um hverju því er ætlað að ná fram með tíð og tíma. Þar sem vel hefur tekist til erlendis hefur svæðisbundin samvinna af því tagi sem svæðisskipulagsverkefnið snýst um m.a. leitt til aukinnar vöruþróunar, í víðri merkingu þess orðs, á grunni auðlinda og sérkenna svæðis. Unga fólkið var því næst fengið til að svara spurningum um tengsl sín við svæðið og hvernig þau upplifa það. Var það gert með því að spyrja um hugsanir og líðan þeirra þegar þau eru á svæðinu eða hugsa heim. Þá var rætt um sérkenni svæðisins og staðaranda út frá uppáhaldsstöðum, þekktum stöðum og leyndum stöðum. Að lokum deildu fundarmenn hugmyndum sínum eða draumum um framtíðarstarf á svæðinu.
Mikill samhljómur var hjá öllum þátttakendum um tengsl við svæðið og upplifun af því. Þannig teiknaðist upp hugarmynd af svæðinu sem einkennist af náttúrufegurð, sveitalífi, ró og frið frá áreiti, af samveru með fjölskyldu og vinum og fjölbreyttum tækifærum til að vera úti í náttúrunni og njóta náinna tengsla við hana, t.d. með göngu upp á fjall eða niður í fjöru, við að sinna sauðburði, taka þátt í dúnleit, veiða eða tína ber.
Í umræðu um framtíðarþróun svæðisins voru skemmtilegar hugmyndir ræddar, s.s. frekari þróun Náttúrubarnaskólans, gistihús sem bjóða upp á einveru og frið frá áreiti hversdagsins, vöruþróun í tengslum við Þörungaverksmiðjuna, uppbygging heilsutengdrar ferðaþjónustu á Reykhólum og sveitaferðaþjónustu sem býður ferðamönnum að taka þátt í ýmsum landbúnaðarstörfum. Fram kom að svæðið byði upp á fjölmörg tækifæri til að skapa.
Ráðgjafar, í samvinnu við svæðisskipulagsnefnd, munu á næstu vikum vinna úr efni fundarins og skoða það í samhengi við gögn frá tveimur opnum vinnufundum sem haldnir voru á svæðinu síðastliðið vor og í haustbyrjun. Unga fólkinu er þakkað kærlega fyrir þátttökuna.