Stefna að mótast
Í vetur hefur verið unnið áfram að því að móta svæðisskipulag Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar en þar er sjónum beint að framtíðarhagsmunum og -samstarfi sveitarfélaganna. Í svæðisskipulaginu verður sett fram sameiginleg stefna þeirra um byggðaþróun.
Í annarri viku í mars fundaði svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna þriggja með kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnunum og þeim nefndum og starfsmönnum sem mest tengjast viðfangsefnum svæðisskipulags. Fulltrúum frá markaðsskrifstofum og atvinnuráðgjöf landshlutasamtakanna tveggja var einnig boðið til fundarins.
Á fundinum kynntu skipulagsráðgjafar frá Alta frumdrög að sóknarmarkmiðum, skipulagsstefnu og aðgerðum fyrir landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu sem eru þær þrjár áherslugreinar atvinnulífs sem sveitarfélögin ákváðu að vinnan snerist um. Drögin byggðu á greiningarskýrslu sem kynnt var í byrjun febrúar sl. Í henni eru sett fram einskonar „póstkort“ sem draga upp grófa mynd af sérkennum og auðlindum svæðisins sem felast í berggrunni, jarðvegi, vatni, jarðhita, gróðri, lífríki, sjávarauðlindum, landslagi, minjum, sögu og mannauði svæðisins. Einkennum hvers þessara þátta er lýst, möguleikum sem í þeim búa og hvernig ætti að umgangast þá til framtíðar. Í skýrslunni er byggt á fjölmörgum heimildum, auk upplýsinga sem komið hafa fram á þeim samráðsfundum sem haldnir hafa verið. Tilgangur greiningarinnar er að ná fram yfirsýn og samhengi fremur en að kafa djúpt í einstaka þætti. Að sama skapi er við stefnumótunina, sem nú stendur yfir, lögð áhersla á að draga fram samhengi áherslugreinanna þriggja, landbúnaðar, sjávarútvegs og ferðaþjónustu; hvernig þær geta nýtt fjölbreyttar auðlindir svæðisins í umhverfi og samfélagi og hvernig þær geta styrkt hver aðra.
Að kynningu Alta lokinni ræddi fundarfólk framlögð drög að markmiðum og aðgerðum. Umræðurnar fóru fram í þremur hópum og ræddi hver hópur eina af áherslugreinunum þremur. Fyrir hópana var lagt að skoða m.a. hvað þeim fyndist vanta inn í tillögurnar, hvort og þá hverju væri ofaukið og ennfremur að koma með ábendingar um breytingar á orðalagi, eftir því sem ástæða þætti til. Einnig fór fram gagnleg umræða þar sem hóparnir fóru yfir helstu áfangastaði og áningarstaði, skv. kynningu og framlögðu korti af ferðaleiðum; rætt var um Vesturáttuna, ferðaleið sem nú er í mótun og ætluð er akandi umferð; og framfylgd svæðisskipulags.
Í lokin gerðu fulltrúar úr hverjum hópi grein fyrir umræðunum og ráðgjafar tóku niður efni þeirra kynninga. Sá afrakstur verður nýttur í áframhaldandi vinnu við mótun stefnu svæðisskipulagsins. Ráðgert er að kynna tillögu að svæðisskipulagi í vor og að formleg auglýsing með tilskildum athugasemdafresti skv. skipulagslögum verði í haust.
Í lok fundar þökkuðu Andrea sveitarstjóri Strandabyggðar og Jóhannes Haukur oddviti Dalabyggðar fundarfólki fyrir góðan og gagnlegan fund. Í máli þeirra kom fram að þau eru ánægð með að vinnan hafi leitt til gagnlegra samræðna milli sveitarfélaganna, bæði um viðfangsefni svæðisskipulagsins, en einnig ræði sveitarfélögin sín á milli um ýmis fleiri sameiginleg verkefni og hagsmunamál. Svæðisskipulagsvinnan sé áhugaverð og muni án efa hjálpa sveitarfélögunum að takast á við verkefni framtíðarinnar.