top of page

Verkefnislýsing til kynningar og umsagnar


Á þriðja fundi sínum, þann 1. júní sl., samþykkti svæðisskipulagsnefnd Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar lýsingu skipulagsverkefnis fyrir sveitarfélögin. Lýsingin er unnin samkvæmt ákvæði 23. gr. skipulagslaga. Í verkefnislýsingunni, sem má nálgast hér, er gerð grein fyrir tildrögum og tilgangi svæðisskipulags og hvernig staðið verður að vinnslu þess. Lýst er landfræðilegu samhengi skipulagssvæðisins og samhengi verkefnisins við aðra stefnumótun og áætlanagerð á svæðis- og landsvísu. Farið er yfir nálgun við greiningu, stefnumótun, umhverfismat og samráð við áætlunargerðina og vinnuferlinu lýst.

Drög að lýsingunni voru til umfjöllunar nefndarinnar í byrjun apríl og kynnt á opnum súpufundi í Tjarnarlundi í Saurbæ í lok þess mánaðar. Í kjölfarið var gengið frá lýsingunni og er hún nú kynnt hér á vefnum þannig að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar geti kynnt sér hana og sent inn ábendingar við það sem þar kemur fram. Verkefnislýsingin hefur jafnframt verið send til Skipulagsstofnunar og fjölmargra aðila til umsagnar eins og skipulagslög gera ráð fyrir. Listi yfir þá aðila er á bls. 15 í skjalinu. Auglýsing um lýsinguna verður jafnframt birt í blaðinu Vestfirðir og Vesturlandsblaðinu og verður hægt að skoða prentútgáfu af henni á skrifstofum sveitarfélaganna þriggja til og með 12. júlí nk. Skjalið verður jafnframt aðgengilegt á vefjum sveitarfélaganna.

Óskað er eftir að umsögn eða hverskonar ábendingar berist fyrir 12. júlí nk. Í lýsingunni er að finna upplýsingar um hvert skuli senda umsögnina og þar eru einnig spurningar um efni sem beint er til lesenda varðandi forsendur, viðfangsefni og nálgun svæðisskipulagsgerðarinnar.


Til fróðleiks
Ný frétt
Eldri fréttir
Leit
Við verðum bráðum á Facebook
  • Facebook Basic Square
bottom of page